Innlent

Umfangsmesta leit síðari ára

Sænski ferðamaðurinn sem leitað hafði verið á Sólheimajökli í tæpa tvo sólarhringa fannst látinn rétt fyrir hádegi í dag. Hann var ofan í jökulsprungu en ekki er hægt að fullyrða hvort hann féll ofan í sprunguna eða fór þar ofan í til að leita skjóls.

Um var að ræða eina umfangsmestu leit björgunarsveita á Íslandi hin síðari ár.

Yfir 300 björgunarsveitamenn tóku þátt í leitinni í morgun, þar af voru um um 80 manns á jöklinum sjálfum.

Hinn látni hét Daniel Markus Hoij. Hann hringdi í neyðarlínuna á miðvikudagskvöldið og bað um hjálp en gat ekki gefið upp staðsetningu sína.

Daníel fannst í dag á svæði sem björgunarsveitarmenn höfðu farið yfir á fimmtudagskvöld í miklu myrkri, án þess að finna hann.

Bróðir Daníels kom til landsins í gær. Hann bar hann kennsl á bróður sinn eftir að hann fannst í dag. Ekki liggur fyrir hvenær Daniel lést en talið er að hann hafi dáið úr kulda. Hann hafði búist til ferðar í gönguskóm, göngubuxum og jakka.

Hilmar Már Aðalsteinsson tók þátt í leitinni frá upphafi og var í hópnum sem að lokum fann Daníel.

Ég myndi segja að hann hafi verið þokkalega búinn, hann var reyndar ekki með mannbrodda eins og hann hefði átt að vera. En þetta undirstrikar að fólk án reynslu á ekki að fara upp á jökul án leiðsögumanna," segir Hilmar Már.

Leitin var á tíðum mjög erfið og krefjandi.

„Fyrstu nóttina komumst við í skála Útivistar, kveiktum upp í honum og lögðum okkur í 45 mínútum og nærðumst. Einn af okkur örmagnaðist og þurfti aðstoð við að koma niður af jöklinum," segir Hilmar Már.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×