Innlent

Dirty Night fór fram á Players þrátt fyrir kæru Kópavogsbæjar

Ólafur Geir Jónsson
Ólafur Geir Jónsson mynd/fréttablaðið
Hinn margumtalaði viðburður Dirty Night var haldinn á skemmtistaðnum Players í Kópavogi í gær þrátt fyrir kæru bæjarins.

Dirty Night fór fram á skemmtistaðnum Players en Jafnréttis- og mannréttindaráð Kópavogsbæjar hefur lagt fram kæru á hendur Ólafi Geir Jónssyni, skemmtanahaldara, Players, og umbosskrifstofunni agent.is, því það telur að auglýsing fyrir viðburðinn brjóti jafnréttislög.

Ólafur Geir hefur haldið hin svokölluð Dirty-Night kvöld um nokkurra ára skeið en Fréttastofa hefur ekki náð af honum tali þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var engin tilkynning bókuð á Players í gærkvöldi og sagði hann að viðburðurinn hafi farið vel fram.

Stjórn Týs, félags ungra Sjálfstæðismanna í Kópavogi, sendi frá sér ályktun vegna málsins í gær þar sem segir að hún telji óheppilegt að tíma og fjármunum bæjaryfirvalda og þar með bæjarbúa sé varið í málefni sem varða ekki við sveitarfélagið sjálft.

Þá harmar stjórnin það að bæjaryfirvöld skuli bera svo litla virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti fullorðinna einstaklinga að þau telji þörf á að reyna að gera allt sem í sínu valdi stendur til að hamla því svo að samræmist siðgæði þeirra.

Ályktunin endar svo á orðunum: Það vill þannig til að það er enginn neyddur til að mæta á fyrrgreint skemmtikvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×