Innlent

Helmingur lýsti ekki yfir stuðningi við Bjarna

JMG skrifar
Bjarni Benediktsson gefur kost á sér til endurskjörs sem formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson gefur kost á sér til endurskjörs sem formaður Sjálfstæðisflokksins. mynd/ anton.
Helmingur þingmanna Sjálfstæðisflokksins var ekki tilbúinn að lýsa yfir stuðningi við Bjarna Benediktsson til formennsku í flokknum þegar fréttastofa kannaði málið í dag.

Hanna Birna Kristjánsdóttir oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn tilkynnti í gær að hún ætli að gefa kost á sér til formennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi flokksins eftir tvær vikur.

Fréttastofa gerði óformlega könnun meðal þingmanna flokksins í dag og spurði hvort þau ætluðu sér að styðja Bjarna Benediktsson núerandi formann flokksins eða Hönnu Birnu í komandi formannsslag.

Fimmtán sitja í þingflokknum, að Bjarna sjálfum frátöldum. Sögðust sjö þingmenn vera eindregnir stuðningsmenn hans og ætluðu sér að kjósa hann sem formann á landsfundinum. Hins vegar vildu sjö þingmenn ekki gefa upp sína afstöðu.

Þá voru þingmenn sem fréttastofa ræddi við flestir sammála um að framboð Hönnu Birnu væri lýðræðismerki í flokknum og bjuggust við málefnalegri og spennandi kosningabaráttu.

Þess má geta að árið 1991 þegar Davíð Oddsson bauð sig fram gegn sitjandi formanni, Þorsteini Pálssyni, studdi einungis einn þingmaður Davíð. Það var Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×