Erlent

Milljónir manna grýta djöfulinn

Mynd/AFP
Nú stendur yfir pílagrímsför milljóna múslima, fimm daga ferð þar sem múslimar feta í fótspor Múhameðs spámanns og ganga til Mekku, höfuðborgar Saudi-Arabíu.

Í dag er annar dagur pílagrímsfararinnar og tóku milljónir múslima þátt í táknrænni athöfn þar sem djöfullinn sjálfur var grýttur. Með athöfninni minnast múslimar þess þegar Abraham grýtti djöfulinn, sem er sagður hafa birst honum þrisvar sinnum til að freista hans.

Athöfnin fer þannig fram að fólksfjöldinn gengur kringum þrjár steinsúlur og kastar steinvölum í átt að þeirri stærstu. Þar sem fjöldi pílagrímanna er gífurlegur er athöfnin ein sú hættulegasta í pílagrímsförinni, þar sem troðningurinn skapar hættu á því að fólk troðist undir. Til dæmis er talið að minnst 360 manns hafi látist í athöfninni árið 2005.

Dagurinn í dag markar einnig upphaf hátíðarinnar Eid al-Adha, en með henni minnast múslimar undirgefni Abrahams við guð, þegar hann samþykkti að fórna sínum eigin syni til að hlýðnast boðum hans.

Í Rússlandi söfnuðust yfir 80 þúsund manns saman í nístandi frosti á götum Moskvu af þessu tilefni. Fólkið hafði ekki í neinn samastað að leita, enda var aðal moska borgarinnar rifin í september og enn hefur önnur ekki risið í hennar stað. Því safnaðist fólkið saman á götum úti til að biðja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×