Innlent

Íslendingar þykja harðir og óbilgjarnir í samningum við ESB

Þeir Íslendingar sem semja um sjávarútvegsmál þykja harðir og óbilgjarnir í viðræðum sínum við Evrópusambandið.

Þetta kom fram í máli Isabellu Löven þingmanns Evrópuþingsins í Brussel þegar hún hitti þar hóp af norrænum blaðamönnum nýlega. Löven situr á Evrópuþinginu fyrir Græna flokkinn í Svíþjóð og á sæti í sjávarútvegsnefnd þingins.

Hún sagði blaðamönnunum sögu um fyrsta fund íslensku viðræðunefndarinnar um sjávarútvegsmál og mótherja þeirra frá Evrópusambandinu í sumar. Sagan er sú að Íslendingarnir hefðu byrjað fundinn með því að telja upp kröfur sínar meðal annars full yfirráð yfir fiskimiðum landsins og áframhaldandi sjálfstæða stefnu í sjávarútvegsmálum á alþjóðvettvangi. Fundurinn var stuttur. Eins og Löven hafði eftir manni á staðnum: Þeir, það er Íslendingarnir, sögðu okkur að fara til fjandans og við sögðum þeim að fara til fjandans.

Aðspurð um hvort einhverjar líkur væru á að Íslendingar fengju meiriháttar undanþágur í sjávarútvegsmálum sagði Löven þær litlar sem engar. Hinsvegar væri verið að breyta sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins og sú breyting gæti komið mikið til móts við kröfur Íslendinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×