Innlent

Bæjarstjórnin segir ólíðandi að OR framkalli jarðskjálfta

Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri í Hveragerði.
Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri í Hveragerði.
Bæjarstjórn tekur undir áhyggjur íbúa vegna síendurtekinna jarðskjálftahrina sem orsakast af niðurdælingu affallsvatns frá Hellisheiðarvirkjun. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2 um helgina og í gær ályktaði bæjarstjórnin að það væri með öllu ólíðandi að framkallaðir séu jarðskjálftar af mannavöldum, allt að 3,5 á Richter skala, með fyrrgreindum áhrifum á nærumhverfið.

„Bæjarstjórn óskar eftir upplýsingum frá Orkuveitu Reykjavíkur um hvort að í umhverfismati Hellisheiðarvirkjunar hafi verið gerð grein fyrir þessum afleiðingum niðurdælingar á nærumhverfið,“ segir í ályktuninni. „Ennfremur óskar bæjarstjórn eftir því að Orkuveita Reykjavíkur geri grein fyrir því hvort búast megi við sambærilegum jarðskjálftum við niðurdælingu í fyrirhugaðri jarðvarmavirkjun í Hverahlíð.“

Bæjarstjórnin fagnar einnig frumkvæði Umhverfis- og Iðnaðarráðuneyta en ráðherrar hafa óskað eftir úttekt vísindamanna Veðurstofunnar, Orkustofnunar og Almannavarna á áhrifum jarðskjálftanna. „Það er krafa bæjarstjórnar að aðrar aðferðir verði notaðar til niðurdælingar á Hellisheiðarsvæðinu, svo íbúar í Hveragerði og nágrenni þurfi ekki framvegis að finna fyrir jarðskjálftum vegna hennar.“


Tengdar fréttir

Vilja að skjálftunum linni

Iðnaðar- og umhverfisráðuneytið hafa óskað eftir því að mikil skjálftavirkni við Hellisheiðarvirkjun verði skoðuð. Bæjarstjórinn í Hveragerði segir skjálftana vekja ugg hjá bæjarbúum og telur að Orkuveitan verði að breyta starfsaðferðum sínum svo íbúarnir þurfi ekki að búa við síendurtekna skjálfta.

Jarðskjálftar fá á íbúa Hveragerðis

Íbúar í Hveragerði eru orðnir þreyttir á tíðum jarðskjálftum út frá Hellisheiðarvirkjun. Þeir hafa fundið vel fyrir þeim stærstu en önnur skjálftahrina varð á svæðinu í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×