Innlent

Nubo fær enga forgangsmeðferð hjá Ögmundi

Innanríkisráðherra segir það ekki óeðlilegt að ráðuneytið hafi beðið í fimm vikur með að óska eftir frekar upplýsingum um kínverska fjárfestinn Huang Nubo. Önnur mikilvægari verkefni hafi verið í forgangi í ráðuneytinu.

Ögmundur Jónasson innanríkissráðherra var spurður um það í þættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun af hverju það hefði tekið ráðuneytið fimm vikur að svara erindi kínverska fjárfestisins Huang Nubo og óska eftir frekari upplýsingum um fjárfestingar hans á Grímsstöðum á Fjöllum. „Við erum að tala um mjög stórt mál, mál sem hefur ekki bara vakið athygli á Íslandi heldur um allan heim. Menn eru að skoða hvað er að gerast í þessum málefnum almennt og þetta er mál sem er mjög umdeilt á Íslandi,“ sagði Ögmundur. „Við ætlum að gera þetta vel, þetta er í stjórnsýslulega farvegi, það er ekki verið að þæfa eða teygja þetta mál á nokkurn hátt. Það er í sínum eðlilega farvegi.“

Ögmundur segir hins vegar gríðarlegt annríki vera á þessum tíma í ráðuneytinu þegar þinghald sé að hefjast og mörg mál í undirbúningi. Einnig taki sum mál alltof langan tíma, til dæmis umsóknir um dvalarleyfi sem hann segist hafa meiri áhyggjur af hvað tíma snertir en málefni Nubo. „Það eru allt of mörg mál í stjórnsýslunni sem taka alltof langan tíma og þar forgangsraða ég öðrum málefnum annarra einstaklinga en þessa kínverska manns.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×