Innlent

Þingmenn gagnrýna harðlega breytingar á réttargeðdeildinni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það er óviðunandi og ámælisvert að ákvörðun um að leggja niður réttargeðdeildina að Sogni sé tekin einhliða af framkvæmdastjórum Landspítalans, segir Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar.

Björgvin gagnrýndi meðal annars við upphaf fundar á Alþingi í dag að ekkert samráð hafi verið haft um málið við sveitarfélög á svæðinu. Hann krafðist þess að fjárlaganefnd Alþingis yrði gerð grein fyrir faglegum og fjárhagslegum forsendum fyrir þessari ákvörðun áður en vikan væri á enda.

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók undir gagnrýni Björgvins. Hún sagði að fréttirnar væru sláandi. „Ég hélt að við hefðum lært eitthvað af umræðunni í fyrra og það væri ljóst svona ákvarðanir á ekki að taka án samráðs við hlutaðeigandi," sagði Unnur Brá. Í fyrra hafi velferðarráðherra lofað meira samráði við niðurskurð í heilbrigðiskerfinu.

Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins, tók jafnframt undir málflutning Björgvins og Unnar Brár.

Rétt er að taka fram að allir fyrrnefndir þingmenn koma úr Suðurlandskjördæmi, þar sem réttargeðdeildin að Sogni er staðsett.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×