Innlent

Ísland ekki tilbúið í viðræður um byggðamál

Íslendingar eru ekki í stakk búnir til þess að hefja viðræður við Evrópusambandið um byggðamál. Þetta kemur fram í svari fastafulltrúa Póllands sem sent hefur verið íslenskum stjórnvöldum samhliða þess að vinnu við rýniskýrslu er varðar málaflokkinn er lokið. Forsenda þess að hefja samningaviðræður um byggðamál er að íslensk stjórnvöld leggi fram ítarlega og tímasetta aðgerðaáætlun þar sem fram komi „skýr markmið að því er varðar framkvæmd byggðastefnunnar og þá stjórnsýslu sem nauðsynleg er."

Þá segir að slík áætlun sé mikilvæg í ljósi þess að Ísland hyggst ekki ráðast í stjórnsýslubreytingar í tengslum við aðildarviðræðurnar fyrr en eftir samþykkt aðildarsamnings í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Á heimasíðu utanríkisráðuneytisins eru helstu atriði úr rýniskýrslunni dregin saman:



  • Íslensk stjórnsýsla er lítil og sveigjanleg og til staðar er talsverð reynsla við rekstur og þátttöku í ýmsum áætlunum ESB.
  • Viðeigandi löggjöf er að mestu til staðar en styrkja þarf lagagrundvöll á nokkrum sviðum og tryggja að fjárlagagerð á sviði byggðamála taki mið af áætlanagerð til lengri tíma.
  • Við framkvæmd byggðastefnunnar ætlar Ísland að nýta núverandi stjórnsýslu eftir því sem kostur er og hafa hana smáa og einfalda í sniðum.
  • Þróa þarf verklag sem tryggir að reglum ESB um val verkefna og framkvæmd byggðastefnunnar verði fylgt og koma á fót samráðsferli milli ráðuneyta.
  • Starfsfólk stjórnsýslunnar er hæft og vel menntað en byggja þarf upp þekkingu vegna framkvæmdar byggðastefnunnar, m.a. á sviði áætlanagerðar, verkefnastjórnunar, eftirlits og mats.
  • Efla þarf stjórnun og eftirlit með ríkisútgjöldum þegar kemur að þeim þáttum sem nauðsynlegir eru til framkvæmdar byggðastefnunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×