Innlent

Ekki endilega slæm niðurstaða fyrir Gunnar Rúnar

Guðrún Sesselja Arnardóttir, hæstaréttarlögmaður.
Guðrún Sesselja Arnardóttir, hæstaréttarlögmaður.
„Í svona málum er ekki hægt að fagna eða harma niðurstöður. Þetta er bara hörmungarmál,“ segir Guðrún Sesselja Arnardóttir, verjandi Gunnars Rúnars Sigurþórssonar, sem var metinn sakhæfur í Hæstarétti Íslands í dag.

Líklega var það mat yfirgeðlæknis á Sogni sem vó þyngst í úrskurði Hæstaréttar, sem var samhljóma.

Í vottorði frá honum segir að eftir „9½ mánuð á Sogni hefur ekki tekist að fá fram nokkru sinni ranghugmyndir, ofskynjanir, hugsanatruflanir eða merki um brenglaða raunveruleikaskynjun. Einkenni ástarsýki finnast ekki nú. Gunnar Rúnar hefur sterk merki persónuleikaröskunar. Gunnar Rúnar er með vissa þráhyggjuþætti, stífur á sinni meiningu og á erfitt með að aðlagast vissum reglum. Hann er rökviss og vel meðvitaður um hvað hann vill og hvað hann ætlar sér."

Athygli vekur hinsvegar að þrjú möt geðlækna, sem voru lögð fyrir Héraðsdóm Reykjaness, komust öll að sömu niðurstöðu; að Gunnar Rúnar væri ósakhæfur.

„Það er helst það sem maður veltir fyrir sér, að geðlæknar hafi komist að þeirri niðurstöðu, að því leytinu til er þetta umhugsunarefni og enn frekar umhugsunarefni hvort svona möt eiga að vera lögfræðileg,“ segir Guðrún Sesselja og spyr ennfremur hvort það sé dómara að meta svona lagað eða lækna.

Hún segir að hin síðari ár hafi dómarar haft tilhneigingu til þess að byggja á sérfræðimötum geðlækna sem eru lögð fyrir dóm en nú fer Hæstiréttur gegn því og túlkar það rýmra.

Niðurstöðu Hæstaréttar verður ekki áfrýjað. Gunnar Rúnar er því á leiðinni í öryggisfangelsi, líklega Litla Hraun.

„Núna veit hann hversu lengi hann þarf að sitja inni. Þannig þetta er ekki endilega verri niðurstaða fyrir hann,“ segir Guðrún Sesselja að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×