Íslenski boltinn

Umfjöllun: Þórsarar fallnir í 1. deild

Henry Birgir Gunnarsson á Nettóvellinum í Keflavík skrifar
Mynd/Valli
Þórsarar féllu aftur í 1. deildina í dag er þeir töpuðu, 2-1, í Keflavík. Á sama tíma vann Grindavík magnaðan sigur í Eyjum og sendu Norðanmenn niður. Þór verður því í 1. deild að ári og þess utan í Evrópukeppni. Ótrúlegt sumar hjá þeim.

Sterkur vindur á annað markið setti mikinn svip á leikinn. Keflvíkingum gekk vel að vinna með vindinn í bakið og óð hreinlega í færum. Enda komst liðið í 2-0 fljótlega. Þórsarar voru niðri í stöðunni 2-0 en þeir svöruðu að bragði.

Þrátt fyrir urmul færa það sem eftir lifði fyrri hálfleiks tókst liðunum ekki að bæta við mörkum í hálfleiknum.

Þórsarar stýrðu ferðinni í síðari hálfleik en gekk hörmulega á síðasta þriðjungi vallarins. Vindurinn gerði þeim lífið leitt og allar stungusendingar voru of fastar og annað í þeim dúr.

Þegar Grindavík komst yfir í Eyjum varð ljóst að Þór yrði að vinna. Þeir reyndu hvað þeir gátu en gekk lítið sem ekkert að skapa færi. Þeirra örlög urðu því að falla að þessu sinni.

Þórsarar voru einfaldlega ekki nógu góðir til að hanga uppi. Taflan lýgur ekki frekar en áður. Þeir voru komnir í fína stöðu fyrir nokkrum vikum en urðu þá værukærir og buðu hættunni heim. Menn þar á bæ hafa eflaust lært mikið á þessu sumri og mig grunar að Þórsarar verði fljótlega komnir upp aftur - reynslunni ríkari.

Hér fyrir neðan má sjá alla textalýsingu leiksins frá blaðamanni Vísi á vellinum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×