Íslenski boltinn

Umfjöllun: Tryggvi klúðraði 2 vítum og Grindavík bjargaði sér í Eyjum

Valur Smári Heimisson á Hásteinsvelli skrifar
Óskar Pétursson ver hér fyrra vítið frá Tryggva Guðmundssyni.
Óskar Pétursson ver hér fyrra vítið frá Tryggva Guðmundssyni. Mynd/Óskar Pétur Friðriksson
Grindvíkingar gerðu hið ótrúlega og björguðu sér frá falli með því að vinna 2-0 sigur á ÍBV í Vestmannaeyjum í lokaumferð Pepsi-deildar karla í dag. Bæði mörk Grindavíkur komu á síðustu tíu mínútunum en áður hafi Óskar Pétursson, markvörður liðsins haldið Grindavíkurliðinu á floti með frábærri markvörslu. Tryggvi Guðmundsson klúðraði tveimur vítum í leiknum.

Ólafur Örn Bjarnason, spilandi þjálfari Grindavíkur, kom sínum mönnum 1-0 á 80. mínútu með skalla eftir hornspyrnu og fjórum mínútum síðar slapp Magnús Björgvinsson í gegn og skoraði annað markið eftir stungusendingu frá Scott Ramsay.

Tryggva Guðmundssyni tókst ekki að bæta markamet Inga Björn Albertssonar þrátt fyrir að hafa fengið mörg tækifæri til þess. Bestu færin voru þó vítaspyrnurnar tvær sem hann klúðraði í leiknum,

Óskar Pétursson varði fyrra vítið frá honum á 17. mínútu leiksins en Tryggvi skaut síðan yfir úr seinna vítinu á 90. mínútunni.

Veðrið var ekki upp á sitt besta eins og kannski við var að búast þegar menn spila utanhús í októbermánuði. Vegna aðstæðna var ekki spilaður neinn glans fótbolti en völlurinn var mjög blautur og mikill vindur sem stór beint á annað markið. Eyjamenn spiluðu undan vindi í fyrri hálfleik og fór boltinn lítið af vallarhelmingi Grindvíkinga.

Lítið var um hættuleg færi framan af en á 17. mínútu fengu Grindvíkingar dæmda á sig ansi vafasama vítaspyrnu þegar Jamie McCunnie braut á Tryggva Guðmundssyni. Spyrnan var svo sem ágæt hjá Tryggva en maður leiksins, Óskar Pétursson, varði glæsilega.

Grindvíkingar héldu hreinu í fyrri hálfleik og spiluðu, eins og við var að búast, með vindinn í bakið í þeim síðari. Þá voru Grindvíkingar heldur betri aðilinn en uppskáru hornspyrnu á 80. mínútu. Scott Ramsey tók spyrnuna og þjálfarinn, Ólafur Örn, stangaði boltann í netið.

Aðeins fjórum mínútum síðar komust Grindvíkingar í 0–2 þegar Scott Ramsey átti sendingu innfyrir vörn Eyjamanna beint á Magnús Björgvinsson sem gerði engin mistök þegar hann var einn á móti Abel og lagði boltan utanfótar í hægra hornið.

Eyjamenn voru ekki alveg hætti en þeir fengu vítaspyrnu á lokamínútu leiksins og Tryggvi Guðmundsson fór á punktinn en skaut boltanum vel yfir markið. Ótrúlegur leikur á Hásteinsvellinum en Grindvíkingar björguðu sér frá falli og Eyjamenn rétt hengu í Evrópusætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×