Íslenski boltinn

Bjarnólfur: Ótrúlega skemmtilegt verkefni

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Bjarnólfur Lárusson þjálfari Víkings.
Bjarnólfur Lárusson þjálfari Víkings. Mynd/Daníel
Bjarnólfur Lárusson þjálfari Víkings kvaddi lið sitt eftir tapleikinn gegn Fram. Hann hættir með liðið eins og hann hafði áður gefið út en segir nýjan mann koma að góðu búi þar sem búið sé að taka vel til í klúbbnum.

„Við gáfum Frömurum hörkuleik. Við fórum ekki nógu vel inn í leikinn en unnum okkur inn í hann. Þeir gerðu vel að vinna þennan hörkuleik. Við ætluðum að vinna þennan leik og keyra áfram. Það er komið ákveðið sjálfstraust eftir síðastliðna tvo sigra og það var aldrei annað í stöðunni en að vinna leikinn en þeir gerðu vel að ljúka honum,“ sagði Bjarnólfur.

Björgólfur Takefusa jafnaði metin fyrir Víking í leiknum en hann hefur farið mikinn á lokakafla tímabilsins. „Hann hefur gert þetta í undanförnum leikjum og litið rosalega vel út. Hann sýnir úrvalsdeildargæði en það voru mörg önnur tækifæri sem við fengum sem við hefðum átt að nýta og stríða þeim aðeins meira.“

„Þeim nægði jafntefli og voru komnir með forystu. Það var skiljanlegt að þeir myndu bakka aðeins og verja markið sitt og þeir gerðu það vel,“ sagði Bjarnólfur sem er ánægðu með endasprett Víkings á tímabilinu eftir að liðið féll.

„Við endum á jákvæðum nótum. Það er búið að taka virkilega til í klúbbnum og það verður mjög gott fyrir nýjan mann að taka við liðinu. Við munum nýta þennan lærdóm af þessu tímabili til að hafa liðið sterkt til framtíðar.“

„Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt verkefni og það er gaman að taka þátt í því en það stóð aldrei til að halda áfram með liðið og ég get það ekki tímalega séð og maður verður að vera samkvæmur sjálfum sér í því,“ sagði Bjarnólfur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×