Íslenski boltinn

Ólafur Örn: Óskar er búinn að vera ótrúlega góður

Valur Smári Heimisson skrifar
Ólafur Örn Bjarnason í leiknum í dag.
Ólafur Örn Bjarnason í leiknum í dag. Mynd/ Óskar Pétur Friðriksson
Ólafur Örn Bjarnason, spilandi þjálfari Grindvíkinga, var að vonum ánægður með sína menn eftir að hafa komið sér úr fallsæti á síðustu stundu. Grindvíkingar unnu Eyjamenn 2-0 á Hásteinsvellinum og var það Ólafur sjálfur sem kom sínum mönnum á bragðið með því að skora fyrsta markið.

„Það er enginn leikur auðveldur í þessari deild og allra síst á móti Eyjamönnum á þeirra heimavelli. En leikurinn sem slíkur var kannski ekkert sérstakur fótboltalega séð en við gerðum vel með að halda okkur inní leiknum í fyrri hálfleik og náðum svo að koma inn mörkum hjá þeim í seinni hálfleik. Þetta var góð barátta hjá okkur og ég er ánægður með strákana í dag," sagði Ólafur Örn.

Grindvíkingar hafa átt afar erfitt tímabil í sumar og fyrir lokaumferðina voru þeir sennilega líklegastir til að falla niður með Víkingum. Þá voru erlendu leikmennirnir ekki að koma eins sterkir inn í liðið eins og Ólafur var að vonast til.

„Það sem var að klikka á þessu tímabili er að erlendu leikmennirnir voru ekki að standa sig eins vel og við vorum að vonast til. Þess vegna fengu mikið af ungum leikmönnum og sumir varamenn meiri spiltíma en var lagt upp með í byrjun. Það þarf samt sem áður að verða einhver uppbygging fyrir næsta tímabil og ég held að það sé öllum ljóst," sagði Ólafur Örn.

Markvörðurinn Óskar Pétursson var maður leiksins á Hásteinsvellinum en hann átti stórleik í markinu og varði meðal annars víti frá Tryggva Guðmundssyni.

„Óskar átti flottan leik eins og í fyrri leikjum. Hann er búinn að vera ótrúlega góður en hann er bara einn hlekkurinn í þessu liði og ég vil meina að strákarnir allir hafi staðið sig vel hérna í dag," sagði Ólafur Örn þjálfari Grindvíkinga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×