Íslenski boltinn

Framtíðin óráðin hjá Willum - heitur fyrir landsliðinu

Henry Birgir Gunnarsson í Keflavík skrifar
Willum Þór Þórsson, þjálfari Keflavíkur, segir það vera óljóst hvort hann haldi áfram með lið Keflavíkur. Hann segist vera opinn fyrir því að þjálfa landsliðið.

"Það er mikill léttir að hafa klárað þetta verkefni. Þetta var svakalegur leikur. Við gerðum ráð fyrir því að Grindavík myndi vinna og því kom aldrei annað til greina en að vinna okkar leik," sagði Willum og það gerðu hans menn. Þeir unnu Þór og sendu Norðanmenn niður í 1. deild.

"Framtíðin er óráðin og við eigum alveg eftir að ræða framhaldið. Ég vildi einbeita mér að því að klára verkefnið að halda liðinu uppi áður en ég hugsaði um annað. Við munum setjast niður og tala saman núna," sagði Willum sem hefur einnig verið sterklega orðaður við landsliðið.

"Ég hef ekki rætt við einn eða neinn hjá KSÍ. Auðvitað hef ég alltaf áhuga á landsliðinu. Það yrðu allir stoltir af því að fá að stýra landsliðinu. Ef KSÍ hefur áhuga á að tala við mig þá er ég til í kaffi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×