Innlent

Blóðugur niðurskurður hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarðar

Ísafjörður.
Ísafjörður.
Gert er ráð fyrir að rekstrargjöld Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða (HV) nemi rúmum einum milljarði króna á næsta ári sem jafngildir um 31,7 milljóna króna lækkun að raungildi frá fjárlögum ársins 2011 samkvæmt frétt sem birtist á fréttavef Bæjarins besta á Ísafirði í dag.

Þar segir að í fjárlagafrumvarpi næsta árs komi fram að framlag til HV lækki um 30,3 milljónir króna sem er í samræmi við áform um lækkun á ríkisútgjöldum, þar af eru 15,4 milljónir króna vegna frestunar á hagræðingu í fjárlögum 2011.

Vegna aukinnar endurgreiðslu á virðisaukaskatti af aðkeyptri tölvuþjónustu hækkar framlagið um 1,4 milljónir króna.

Þröstur Óskarsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunarinnar, segir í viðtali við bb.is að niðurskurðurinn, sem bætist við niðurskurð frá því í ár, muni hafa í för með sér skerðingu á þjónustu og fækkun á starfsfólki.

„Það var búið að kynna fyrir forstöðumönnum heilbrigðisstofnana að þetta yrði í þessum dúr,“ sagði Þröstur aðspurður um málið á vef bb.is.

„Við þurfum á næstu vikum að gera okkur grein fyrir því hvernig hægt er að mæta þessu en því miður er útlit fyrir að það verði ekki hægt nema með skerðingu á þjónustu og fækkun á starfsfólki.“

Nánar er fjallað um málið á vef bb.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×