Innlent

Engin olíuvinnsla á Jan Mayen-svæðinu nema öryggið sé tryggt

Annað olíuleitarútboð Íslendinga á Drekasvæðinu hófst formlega í dag en ekki kemur í ljós fyrr en eftir sex mánuði hvort einhver hafi áhuga á að bora. Utanríkisráðherra Noregs segir að tryggja verði viðbúnað vegna mengunarslysa áður en vinnsla verður leyfð á Jan Mayen-svæðinu.

Þetta er í annað sinn sem Íslendingar freista þess að fá olíufélög heims til að leita en fyrsta tilraun fyrir rúmum tveimur árum misheppnaðist þegar tveir umsækjendur hættu báðir við. Önnur tilraun átti að hefjast fyrr í sumar en það klúðraðist einnig þegar lagabreytingar dagaði uppi á Alþingi. Til stóð að tilboðin í annarri umferð yrðu opnuð 1. desember næstkomandi en nú er ljóst að það verður ekki fyrr en í byrjun apríl á næsta ári.

Íslendingar hafa samráð við Norðmenn um útboðið vegna samnings um gagnkvæman nýtingarrétt milli þjóðanna á Jan Mayen-hryggnum. Norðmenn eru einnig farnir að undirbúa olíuleit við Jan Mayen en meðal þess sem utanríkisráðherra Noregs ræddi við íslenska ráðamenn fyrir helgi var auðlindanýting á Norðurslóðum.

Ríkisstjórn Noregs vill fara varlega í að leyfa olíuleit á nýjum svæðum norðan heimskautsbaugs og segir Jonas Gahr Støre utanríkisráðherra að menn geti ekki hafist handa nema vera alveg vissir um að að hafa nægilega gott viðbragðskerfi fyrir umhverfið, svo fiskimið skaðist ekki.

Hann segir að í 40 ár hafi Norðmenn farið sér hægt, skref fyrir skref, á grundvelli þeirrar þekkingar sem hafi verið aflað. Ef starfsemi hefjist á Jan Mayen-svæðinu verði þar mörg erfið verkefni til að tryggja öryggið.

„Við setjum okkur það skilyrði fyrir fram að við höldum ekki áfram nema okkur finnist við hafa nægilega góðan viðbúnað," segir Jonas Gahr Støre.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×