Innlent

Eigandi byssukúlnanna gaf sig fram

Maður á besta aldri gaf sig fram við lögreglu í dag eftir að fréttir bárust af því að tvær byssukúlur hefðu fundist fyrir framan Alþingishúsið í morgun.

Maðurinn reyndist eiga skotin en hann segist hafa misst þau þegar hann stóð upp við þinghúsið þegar hann var að mótmæla í gærkvöldi.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni var maðurinn með skotin í brjóstvasanum þar sem hann hafði verið á gæsaveiðum sömu helgi. Hann hefði gleymt því að hann væri með skotin í vasanum.

Maðurinn reyndi að finna skotin í gærkvöldi eftir að hann missti þau, en fann ekki vegna myrkurs.

Maðurinn, sem er vanur veiðimaður, hefur gert grein fyrir ferðum sínum í gær en ekkert bendir til annars en hann hafi verið á Austurvelli í gærkvöld í friðsömum tilgangi.

Að endingu má geta þess að lögreglan hefur rifjað upp með honum helstu reglur um vörslu og meðferða skotfæra.

Af framansögðu telur lögreglan komna líklega skýringu á skothylkjunum sem fundust við Alþingishúsið.

Þingheimur var sleginn vegna málsins. Forseti Alþingis fundaði meðal annars með formönnum stjórnmálaflokkanna fyrr í dag eftir að kúlurnar fundust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×