Innlent

Líflátshótanirnar voru til á upptöku - stöðumælavörðum oft hótað

Kolbrún Jónatansdóttir, framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs
Kolbrún Jónatansdóttir, framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs mynd/gva
„Ég fagna þessum dómi því þetta gerist eiginlega alltof oft," segir Kolbrún Jónatansdóttir, framkvæmdarstjóri Bílastæðasjóðs. Karlmaður á fertugsaldri var í vikunni dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir ofbeldis- og líflátshótanir í garð stöðumælavarðar.

Í þessu tilfelli var maðurinn dæmdur fyrir ýmsar hótanir í garð stöðumælavarðarins. Til dæmis var hann dæmdur fyrir eftirfarandi ummæli: „...þú setur ekki fokking sekt á bílinn minn hérna, þetta er 5000 kall fyrir ekki fokking neitt! Ha, fokking langar mig að drepa þig maður."

Í ákærunni eru ummælin höfð innan gæsalappa og var ekki deilt um það fyrir dómi hvort maðurinn hefði látið þau falla. Það var vegna þess að ummælin voru til á upptöku.

„Þetta er í fyrsta skiptið sem það hefur verið hægt að ná svona hótunum á upptöku og nota það fyrir dómi," segir Kolbrún. „Þegar svona kemur upp er stillt á öryggishnapp og þá fer sjálfvirk upptaka í gang og hún gengur þar til lögregla kemur á vettvang."

Hún segir það alltof algengt að ökumenn hóti eða blóti stöðumælavörðum. „Þetta er eiginlega alltof algengt jafnvel þótt að verðirnir segja að þeir séu bara að vinna vinnuna sína."

Hún segir að hótanir til sjóðsins í gegnum síma hafi þó fækkað síðustu mánuði. „Það hefur lagast og það hefur orðið meiri skilningur á því að það þarf að halda uppi lögum og reglum í bílastæðamálum."

Stöðumælaverðir hafa aðgang að sálfræðingum á vegum Reykjavíkurborgar ef þeir hafa orðið fyrir aðkasti í starfi. „Og ef þau lenda í áföllum þá er boðið upp á áfallahjálp," segir hún að lokum.




Tengdar fréttir

Hótaði að drepa stöðumælavörð sem var að sekta

Karlmaður á fertugsaldri var í fyrradag dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir ofbeldis- og líflátshótanir í garð stöðumælavarðar sem var við skyldustörf. Atvikið átti sér stað í október á síðasta ári en stöðumælavörðurinn ætlaði að sekta hann fyrir að leggja ólöglega á stíg sem liggur á milli Bergþórugötu og Njálsgötu í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×