Innlent

Ögmundur: Ráðning Páls undarleg

Erla Hlynsdóttir skrifar
Innanríkisráðherra segir ráðningu Páls Magnússonar sem forstjóra Bankasýslu ríkisins vera undarlega. Hann hefur því bæst í hóp þeirra sem gagnrýna ráðninguna. Rökstuðnings er að vænta frá stjórn Bankasýslunnar innan tíðar.

Við sögðum frá því í fréttum okkar á sunnudag að Páll hafi verið ráðinn í stöðuna þrátt fyrir að vera sá umsækjandi sem hafði minnstu menntunina og minnstu reynsluna af störfum fyrir bankastofnanir. Þá sagði forstjóri Banaksýslunnar að faglega hafi verið staðið að ráðningunni.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sendi í gærkvöld bréf á stjór Bankasýslu ríkisins þar sem óskað er eftir formlegum skýrungum á ferli ráðningarinnar.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, tekur undir með Steingrími. „Óháð því hvað mér finnst um þennan einstakling, þá finnst mér þetta undarleg ráðning," segir Ögmundur í samtali við fréttastofu.

Hann segir að sér finnist mikil áhöld um að þeir einstaklingar sem áttu beina aðkomu að ákvörðunum um bankakerfið í aðdraganda hrunsins veljist til ábyrgðarstarfa fyrir hönd hins opinbera á því sviði, enda hafi fjármálaráðherra óskað eftir skýringum.

Ráðningin var rædd á Alþingi í gær þar sem Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, sagði hana vera hneyksli.

Í dag bættist svo Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður Vinstri græanna, í hóp þeirra sem gagnrýna ráðninguna og skrifar á heimasíðu sína að hún sé „þvílíkt rugl."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×