Innlent

Óbyggðanefnd úrskurðar um Norðurland

Hér má sjá hvernig starfi óbyggðanefndar hefur miðað.
Hér má sjá hvernig starfi óbyggðanefndar hefur miðað. Mynd:obyggdanefnd.is
Óbyggðanefnd mun á mánudaginn kemur kveða upp úrskurði í deilumálum um eignaréttarlega stöðu lands á Norðurlandi milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar. Uppkvaðningin fer fram klukkan 10:00 í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu.

Með úrskurðum sínum lýkur nefndin umfjöllun sinni um svæði númer sjö, en landinu öllu er skipt í ellefu svæði, eins og greinir nánar á skýringarmyndinni hér til hliðar.

Óbyggðanefnd var skipuð árið 1998. Hlutverk hennar er að skera úr um hvaða svæði landsins eru í einkaeigu og hver teljast eign ríkisins. Samkvæmt núgildandi lögum skal stefnt að því að óbyggðanefnd ljúki starfi sínu fyrir árið 2014.

Undanfarið hefur hins vegar dregið úr umfangi óbyggðarnefndar og starfsemi. Sif Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri óbyggðanefndar, segir það muni fara eftir fjárveitingum hvort nefndinni takist að ljúka starfi sínu fyrir sett tímamark.

Eins og stendur hefur óbyggðanefnd eitt mál sem varðar sveitarfélagamörk til umfjöllunar. Þar fyrir utan eru ekki önnur mál á borðinu en þau sem úrskurðað verður um á mánudaginn komandi.

Samkvæmt gildandi lögum er fjármálaráðherra er ekki heimilt að gera kröfur varðandi þau landsvæði sem eftir eru fyrr en í fyrsta lagi í janúar á næsta ári. Það fer því mjög eftir þeim kröfum ráðherra sem og fjárveitingum hvort nefndin mun hafa eitthvað að starfa á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×