Innlent

Eldfjall framlag Íslands til Óskarsverðlauna

Meðlimir Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar hafa valið Eldfjall, kvikmynd Rúnars Rúnarssonar sem framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2012 sem besta erlenda myndin.

Kvikmyndin Eldfjall fjallar um Hannes, 67 ára gamlan mann sem er að komast á eftirlaunaaldur. Hann er karlmaður af gamla skólanum, einangraður frá fjölskyldunni og heimilinu og þarf nú að takast á við nýtt hlutverk í lífinu. Eldfjall er þroskasaga manns sem þarf að takast á við val fortíðarinnar og erfiðleika nútímans til að eiga möguleika á framtíð.

Eldfjall var frumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Cannes þar sem hún keppti í tveimur flokkum: Director's Fortnight og Camera D'Or. Myndin hefur einnig verið sýnd á fleiri alþjóðlegum kvikmyndahátíðum eins og í Karlovy Vary og nú síðast fyrir stuttu í Toronto í Kanada. Eldfjall kemur til almennra sýninga á Íslandi þann 30. september næstkomandi.

Leikstjóri og handritshöfundur Eldfjalls er Rúnar Rúnarsson og myndin er framleidd af Skúla Malmquist og Þóri Snæ Sigurjónssyni hjá Zik-Zak.

Hér fyrir ofan má sjá nýtt sýnishorn úr Eldfjalli en það var frumsýnt hér á Vísi í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×