Erlent

Messaði yfir 100 þúsund manns undir berum himni

Páfinn í Freiburg í morgun
Páfinn í Freiburg í morgun mynd/afp
Fjögurra daga heimsókn Benedikts sextánda páfa til heimalands síns, Þýskalands, lauk í morgun.

Yfir hundrað þúsund manns sóttu messu sem páfinn hélt undir berum himni í borginni Freiburg í morgun. Margir lögðu mikið á sig til að sjá páfann með berum augum og ferðuðust langa vegalengd en yfir 25 milljónir Þjóðverja eru kaþólikar.

Í ræðu sinni hvatti páfinn kaþólika til að halda áfram að rækta trú sína. Kaþólikar í Þýskalandi ættu hrós skilið fyrir þau góðu verk sem þeir hefðu unnið í landinu en þeir þyrftu að halda áfram að rækta samband sitt við Guð til að geta tekist á við viðfangsefni samtímans. Kirkjan og trúin stæðu nú á tímamótum og því væri nauðsynlegt að rækta trúnna.

Heimsókn páfans hefur valdið vonbirgðum hjá mörgum kaþólikum sem segja að hann hafi farið fram úr sér þegar hann sagði að dræm ástundun kaþólika væri að eyðileggja kirkjuna í landinu. Mótmæli hafa verið á þeim stöðum sem hann hefur heimsótt en fjölmennustu voru í Berlín.

Páfinn hefur á síðustu fjórum dögum meðal annars hitt einstaklinga sem hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun innan kirkjunnar. Hann mun hafa tekið fundinn með fórnarlömbunum mikið inn á sig og vottaði þeim og fjölskyldum þeirra samúð sína.

Áður en Páfinn snýr aftur heim til Vatíkansins í kvöld mun hann snæða hádegisverð með trúarleiðtogum og hitta dómara frá þýska stjórnlagadómstólnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×