Íslenski boltinn

Heimir Guðjónsson: Fórum of seint af stað í sumar

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Heimir Guðjónsson þjálfari FH.
Heimir Guðjónsson þjálfari FH. Mynd/Daníel
Heimir Guðjónsson þjálfari FH sá lið sitt tryggja Evrópusæti að ári með 4-2 sigri á ÍBV í kvöld en fögnuðurinn í leikslok var enginn í ljósi þess að KR tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn.

„Þetta var góður sigur en ég vil nota tækifærið og óska KR til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn og þá sérstaklega þjálfaranum Rúnari Kristinssyni með frábæran árangur. KR vann þetta verðskuldað. Þeir spiluðu bæði skemmtilegan og árangursríkan fótbolta,“ sagði Heimir.

„Við byrjuðum þennan leik illa. Við vorum hægir og langt á eftir og ekki nógu nálægt mönnunum okkar. Þeir komust verðskuldað yfir en við unnum okkur hægt og bítandi inn í leikinn og spiluðum vel þegar leið á fyrri hálfleikinn. Svo fannst mér við töluvert betri í seinni hálfleik og unnum þennan leik sanngjarnt,“ sagði Heimir en FH fór í gegnum allt tímabilið án þess að tapa leik á heimavelli.

„Við viljum hafa það þannig að lið sem koma hingað á þennan völl að þau eigi ekki að ganga að neinu vísu og það hefur gengið ágætlega í sumar þó svo sem að það hafi komið tveir þrír leikir sem maður er ekki ánægður með. Við fórum of seint af stað og verðum að læra af því og koma betur tilbúnir á næsta ári,“ en slök byrjun varð FH einnig að falli á síðasta tímabili.

„Við vorum með ákveðnar lausnir til að laga það en því miður þá gekk það ekki eftir.“

„Það var forsenda að tryggja þetta Evrópusæti, nú erum við komnir í annað sætið og auðvitað reynum við að klára mótið með sæmd á laugardaginn. Það skiptir miklu máli að klára tímabilið vel og vera ekki að kasta til hendinni í síðasta leik. Við þurfum að gera það. Ég hef alltaf metið það þannig að alvöru menn fara í knattspyrnuleik, mæta á svæðið til að vinna,“ sagði Heimir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×