Íslenski boltinn

Willum Þór: Hroðalegt ef maður fer í punktatalningu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Willum Þór Þórsson, þjálfari Keflavíkur.
Willum Þór Þórsson, þjálfari Keflavíkur. Mynd/Vilhelm
Willum Þór Þórsson var afar ánægður með sigur sinna manna á Valsmönnum. Sigurinn var langþráður enda Keflvíkingar ekki unnið leik síðan í lok júlímánaðar.

„Já, virkilega. Við fórum vel yfir málin fyrir þennan leik og ætluðum að vera agaðir og skipulagðir og vinnusamir. Það gekk eftir á móti mjög öflugu Valsliði," sagði Willum. Hann sagði sigur Framara fyrr í dag ekki hafa gefið liðinu aukinn kraft.

„Við ræddum ekkert um það. Við erum að fara inn í lokatörn þar sem þriðjungur af mótinu er spilaður og við þurfum að fara í hvern leik til þess að berjast fyrir þeim punktum sem eru í boði. Það er uppleggið hjá okkur."

Keflvíkingar voru án Haraldar Freys Guðmundssonar sem farinn er til Start í Noregi. Einar Orri Einarsson tók stöðu hans í hjarta varnarinnar og stóð sig vel.

„Virkilega. Hann lék mikið sem miðvörður í vetur og hefur verið til vara í þeirri stöðu þannig að við vitum hvað hann getur. Við vissum að hann myndi leysa stöðuna sem hann og gerði í dag," sagði Willum.

Willum vildi ekki gefa út hve mörg stig hann teldi liðið þurfa til þess að bjarga sér frá falli.

„Það er hroðalegt ef maður fer í punktatalninguna því það tekur focusinn af því sem skiptir máli. Það eina sem ég get fullyrt er að þessari baráttu er ekki lokið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×