Íslenski boltinn

Bjarnólfur Lárusson: Það vantar drápseðlið í okkur

Ari Erlingsson skrifar
Bjarnólfur Lárusson þjálfari Víkinga.
Bjarnólfur Lárusson þjálfari Víkinga. Mynd/Hag
Bjarnólfur Lárusson þjálfari Víkinga var fúll eftir tap sinna manna í Árbænum í kvöld. Sigurmark Fylkismanna kom með síðustu spyrnu leiksins en Bjarnólfur hefði viljað sjá sína menn sýna meira drápseðli upp við mark andstæðingsins sem hefði þá skilað þeim betri úrslitum.

„Það er lítið hægt að segja eftir svona leik. Við vorum að stjórna spilinu út á vellinum, fáum betri færi og klúðrum svo vítaspyrnu. Því miður vantar drápseðlið í liðið til þess að klára svona leiki. Menn verða að trúa því að þeir geti unnið fótboltaleiki og þvi miður virðist vanta þá trú í liðið," sagði Bjarnólfur.

„Það er erfitt að peppa mannskapinn upp eftir svona leik og auðvitað sækir að okkur vonleysi og þessi úrslit koma niður á sjálfstrausti strákanna. Hinsvegar þýðir ekki að hengja haus heldur verðum við bara að klára hverja einustu mínútu almennilega það sem eftir er af þessu móti og byggjum upp okkur upp með framtíðina í huga," sagði Bjarnólfur en Víkingsliðið á enn eftir að vinna leik undir hans stjórn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×