Íslenski boltinn

Umfjöllun: Valsmenn felldu Víkinga niður um deild

Stefán Árni Pálsson á Víkingsvelli skrifar
Mynd/Anton
Valsmenn felldu Víkinga niður um deild í kvöld þegar þeir sigruðu heimamenn 1-0 í Fossvoginum. Valsmenn skoruðu eina mark leiksins rétt fyrir lok fyrri hálfleiks og í raun magnað að aðeins eitt mark hafi verið skorað í leiknum. Matthías Guðmundsson, leikmaður Vals, gerði mark gestanna.Valur réði lögum og lofum í seinni hálfleiknum og fengu heldur betur færin til að skora fleiri mörk.

Valsmenn voru örlítið hressari á upphafsmínútum leiksins. Atli Svein Þórarinsson átti ágætan skalla beint á Magnús Þormar í marki Víkings.

Eftir stundarfjórðung náði Magnús Páll Gunnarsson, leikmaður Víkings, nokkuð efnilegu skoti í hliðarnetið og það virtist sem heimamenn væru aðeins að hressast.

Víkingar voru virkilega ákveðnir og fóru af fullum krafti í allar tæklingar, kannski aðeins og harkalega.

Eftir tuttugu mínútna leik virtist Colin Marshall, leikmaður Víkings, senda Bjarnólfi Lárussyni tóninn á hliðarlínuna og það fór ekki vel í þjálfarann. Colin var tekinn af velli um leið og þeir félagarnir rifust nokkuð á hliðarlínunni.

Leikurinn var heldur rólegur alveg framað loka andartaki hálfleiksins þegar gestirnir komust yfir.

Matthías Guðmundsson, leikmaður Vals, átti skot nokkuð langt fyrir utan teiginn sem virtist aldrei vera á leiðinni í netið. Magnús Þormar, markmaður Víkings, missti boltann undir sig og í netið. Virkilega klaufalegt atvik sem segir örlítið sögu Víkings í sumar. Staðan því 0-1 í hálfleik.

Valsmenn hresstust greinilega við markið og voru mun betri aðilinn í síðari hálfleiknum. Víkingar komust aldrei á skrið og náðu varla að skapa sér færi í leiknum. Liðið virkaði þreytt og eins og menn hefðu ekki trú á verkefninu.

Gestirnir óðu í færum í seinni hálfleik og ótrúlegt að boltinn hafi ekki farið í netið oftar, en niðurstaðan 1-0 sigur Vals og Víkingar því fallnir niður í 1. deild þar sem þeir leika að ári.



Víkingur  0 – 1 Valur

0-1 Matthías Guðmundsson  (44.)

Skot (á mark): 5 – 10 (2-4)

Varin skot: Magnús  2 – 1 Haraldur

Horn: 3 – 10

Aukaspyrnur fengnar: 9–12

Rangstöður: 0-2




Fleiri fréttir

Sjá meira


×