Erlent

Vill leggja auknar byrðar á hátekjufólk

Barack Obama, bandaríkjaforseti, stefnir að því að hækka skattlagningu á ríkustu samlanda sína. Reglurnar eru svör við ákalli um að auðmenn axli auknar byrðar við lausn á skuldavanda landsins.

Enn liggur ekki nákvæmlega fyrir hvernig frumvarpið verður útfært. Þó er víst að hinn fyrirhugaði skattur verður lagður á heimili sem hafa yfir eina milljón bandaríkjadala - eða tæpar hundrað og sautján milljónir króna - í árstekjur. Starfsmenn Hvíta hússins segja að Obama muni skýra frumvarp sitt nánar á morgun um leið og hann kynnir langtíma áætlun sína til að minnka viðskiptahalla Bandaríkjanna.

Frumvarpið er nefnt Buffett-reglan, í höfuðið á bandaríska fjárfestinum og hátekjumanninum Warren Buffett. Síðastliðið sumar skrifaði Warren Buffett grein í New York times þar sem hann hvatti Bandaríkjaþing til að hækka skatta á hina launahæstu. Hann sagði ósanngjarnt að á meðan stjórnmálamenn kalli eftir sameiginlegum fórnarkostnaði þjóðarinnar og miðstéttin berjist í bökkum við að ná endum saman hafi hann og hinir ofurríku félagar hans ekki þurft að fórna neinu.

Buffett benti í grein sinni á að hann hefði aðeins greitt sautján komma fjögur prósent af innkomu sinni í skatt, meðan venjulegir borgarar greiði frá þrjátíu prósentum og upp í fjörtíu og eitt. Hann óskar vinsamlega eftir því að stjórnmálamenn hætti að dekra við hálaunafólk.

Og nú ætlar Obama sér að verða við þeirri ósk. Líkur standa til þess að tillagan muni hljóta mikla mótstöðu í þinginu, enda hafa repúblikanar lýst því yfir að þeir muni standa gegn öllum skattahækkunum. Obama, sem stendur frammi fyrir kosningum á næsta ári, þarf hins vegar að finna leiðir til að leysa skuldavanda landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×