Innlent

Gærdagurinn á Alþingi

Á síðasta degi þingsins í gær voru samþykkt ný sveitarstjórnarlög, ný lög um greiðsluþjónustu og lög um breytingar á lögum um lífeyrissjóði, svo aðeins fátt eitt sé nefnt en alls voru tuttugu lagabálkar samþykktir.

Ný sveitarstjórnarlög sem samþykkt voru í gær fela ekki sér neinar meiri háttar breytingar á íslenska sveitarstjórnarstiginu. Flestir kaflar frumvarpsins byggja því á ákvæðum gildandi laga en ákveðnir kaflar frumvarpsins fela þó í sér miklar breytingar en þar er helst um að ræða ákvæði um fjármál sveitarfélaga, eftirliti með fjármálum þeirra, samvinnu sveitarfélaga, samráði við íbúa og stjórnsýslueftirlit.

Þá var í gær samþykkt frumvarp um breytingar á stjórnarráðinu en samkvæmt gildandi lögum voru ráðuneytin talin upp í lögunum. Í frumvarpi forsætisráðherra er gert ráð fyrir að þetta verði aflagt. Einungis forsætisráðherra er nefndur í lögunum og hann gerir síðan tillögu um önnur ráðuneyti, en þau mega samkvæmt hinum nýsamþykktu lögum flest vera tíu talsins. Samkomulag náðist í þinginu um orðalagsbreytingar á frumvarpinu en samkvæmt þeim þarf forsætisráðherra að fá samþykki Alþingis fyrir breytingum á fjölda og heitum ráðuneyta.

Þá öðlaðist lagagildi í gær fyrsti heildstæði lagabálkurinn um greiðsluþjónustu, en um er að ræða innleiðingu á tilskipun Evrópusambandsins um sama efni. Greiðsluþjónusta nær yfir ýmislegt annað en notkun greiðslukorta en sem dæmi má nefna að millifærslur í heimabönkum og peningasendingar munu falla undir lögin.  Eitt af markmiðum tilskipunarinnar er að efla réttarstöðu neytenda, með því að skýra leikreglur innan Evrópska efnahagssvæðisins að því er varðar greiðsluþjónustu.

Þá voru í gær samþykktar breytingar á lögum um lífeyrissjóði sem fela í sér heimildir fyrir lífeyrissjóði til að eiga og reka íbúðarhúsnæði en í gildandi lögum var lagt blátt bann við fjárfestingu lífeyrissjóða í fasteignum nema það væri nauðsynlegt vegna starfsemi sjóðanna. Í frumvarpinu sem samþykkt var í gær er undanþága frá því þegar um íbúðarhúsnæði er að ræða en með þessu er lífeyrissjóðum gert kleift að gera samninga við leigumiðlanir um útleigu íbúða eða stofna sjálfir félög í þeim tilgangi.

Jafnframt voru í gær samþykkt lög um húsnæðismál sem gera Íbúðalánasjóði kleift að bregðast við breyttum aðstæðum á íbúðamarkaði og stuðla tímabundið að auknum framkvæmdum í byggingariðnði með því að liðka fyrir útlánum sjóðsins til endurbóta og breytinga á fasteignum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×