Erlent

Skotið á mótmælendur í Jemen

Myndin er af mótmælendum sem krefjast afsagnar forsetans Ali Abdullah Saleh.
Myndin er af mótmælendum sem krefjast afsagnar forsetans Ali Abdullah Saleh. Mynd/AFP
15 manns létu lífið og minnst 100 særðust þegar skotið var á mótmælendur í Jemen í dag. Sveitir hliðhollar Ali Abdullah Saleh, forseta landsins, skutu af húsþökum á mótmælendur sem kröfðust afsagnar Saleh.

Síðan í janúar á þessu ári hefur gagnrýni á forsetann Saleh vaxið mjög. Hann er sakaður um spillingu og mótmælendur, innblásnir af hugsjónum arabíska vorsins, krefjast afsagnar hans. Saleh hefur stjórnað Jemen frá árinu 1978, en síðustu mánuði hefur hann dvalið í Saudi Arabíu eftir að ráðist var á heimili hans í júní síðastliðnum.

Nú er útlit fyrir að forsetinn muni afsala sér völdum. Í síðustu viku gaf Saleh vara-forseta landsins leyfi til að undirrita í sínu nafni pappíra þess efnis. Talið er að meðal skilyrða sem sett verða sé að sonur Saleh verði í næstu ríkisstjórn. Mótmælendur í dag vildu ýta á eftir þessum framkvæmdum.

Mótmælin koma í kjölfar þess að þúsundir aðgerðarsinna ruddust inn í aðal-háskóla höfuðborgar landsins og komu í veg fyrir skólasetningu. Mótmælendurnir ruddust inn í skólann syngjandi, „Engin kennsla, engin menntun fyrr en forsetinn lætur af völdum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×