Innlent

Steingrímur: Ekki tími fyrir hreystiyfirlýsingar

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon.
Fjármálaráðherra telur tjón íslenskra fyrirtækja af beitingu hryðjuverkalaganna vera meira en segir í skýrslu um málið. Hann útilokar ekki málshöfðun en segir þetta heldur ekki vera tíma hreystiyfirlýsinga.

Á Alþingi í gær var kynnt skýrsla fjármálaráðherra um áhrif beitingu hryðjuverkalaganna á íslensk fyrirtæki. Í skýrslunni kemur fram að beint tjón sé metið á bilinu tveir til níu milljarðar. En jafnframt kemur þar fram að ómögulegt sé að meta það fjárhagslega tjón sem fólst í löskuðu orðspori Íslendinga eftir beitingu hryðjuverkalaganna.

Fjármálaráðherra telur tjónið vera meira en skýrslan gefur til kynna.

Þingmenn Framsóknarflokksins tilkynntu í dag að þeir muni leggja fram þingsályktunartillögu á næsta þingi þar sem forsætisráðherra verður gert að undirbúa málshöfðun gegn Bretum fyrir hönd íslenska ríkisins og krefjast skaðabóta. Sama tillaga var lögð fram síðastliðinn vetur en var þá felld.

Steingrímur segir að nú þurfi að ræða málið.

Skýrslan var unnin að beiðni Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns sjálfstæðisflokksins. Hann segir hið óbeina tjón eflaust hlaupa á tugum milljarða. Stjórnmálamenn allra flokka eigi að vinna að því saman að ná þeim peningum til baka. Það sé óþolandi að stórveldi geti níðst á vopnlausri smáþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×