Erlent

Uppgötva plánetu þar sem sólarlagið er tvöfalt

Skjáskot úr Star Wars af sólarlaginu á Tatooine.
Skjáskot úr Star Wars af sólarlaginu á Tatooine.
Geimvísindamenn NASA hafa uppgötvað plánetu sem gengur á sporbaug í kring um tvær sólir. Möguleikinn á því að líf þrífist á þess háttar plánetum er töluvert meiri en á þeim sem snúast aðeins kring um eina sól.

Tilvera veraldar þar sem sólarlagið er tvöfalt, eins og á plánetunni Tatooine úr Star Wars, er nú vísindaleg staðreynd. Plánetan sem um ræðir nefnist Kepler-16b og er í 200 ljósára fjarlægð frá jörð. Öfugt við eyðimerkurveröld Tatooine er plánetan köld, yfirborðið gaskennt og nær óhugsandi að þar þrífist lífverur.

Þessi mynd er af hinni nýfundnu stjörnu Kepler-16b.Mynd/AFP
Vísindamenn hafa lengi haft óljósan grun um tilvist pláneta sem snúast um tvær sólir. Þessi tímamóta uppgötvun staðfestir þá kenningu og þó lífsskilyrði séu ekki hagstæð á þessari tilteknu plánetu telja vísindamenn að á plánetum sem hringsóla um tvær sólir séu almennt meiri líkur á að líf finnist.

Það voru vísindamenn Kepler verkefnis Geimferðastofnunar Bandaríkjanna sem fundu plánetuna. Kepler verkefnið miðar að því að fínkemba Vetrarbrautina í kring um okkur með hjálp öflugra sjónauka í leit að plánetum sem líkjast jörðinni. Markmiðið er að finna hnetti innan lífbeltis fjarlægra sóla þar sem líf gæti þrifist.

Þessar uppgötvanir voru birtar á föstudaginn var í vísindablaðinu Science.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×