Fótbolti

Sóknarmaðurinn Moa er sjóðheitur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Osló skrifar
Mohammed Abdellaoue fagnar marki með Hannover.
Mohammed Abdellaoue fagnar marki með Hannover. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Norðmenn munu stilla upp hinum öfluga Mohammed Abdellaoue, eða Moa eins og hann er kallaður, í fremstu víglínu gegn Íslandi í kvöld. Sá hefur verið sjóðheitur bæði með norska landsliðinu og Hannover 96 í þýsku úrvalsdeildinni.

Hinn 25 ára gamli Moa opnaði markareikninginn sinn með Noregi gegn Íslandi á Laugardalsvelli í fyrra. Þá skoraði hann einkar glæsilegt mark sem tryggði Noregi 2-1 sigur í leiknum. Síðan þá hefur hann nánast verið óstöðvandi. Skömmu áður hafði hann gengið til liðs við Hannover frá Vålerenga í heimalandinu og skoraði hann tíu mörk á sínu fyrsta tímabili í þýsku úrvalsdeildinni.

Hann hefur farið af stað af miklum krafti í haust og skorað sex mörk í alls sjö leikjum með Hannover í öllum keppnum nú í upphafi keppnistímabilsins. Hann skoraði þar að auki tvö mörk í 3-0 sigri Noregs á Tékklandi í æfingaleik þann 10. ágúst síðastliðinn.

Fyrir vikið hefur hann fengið mikla athygli norskra fjölmiðla og þeir veðja á að hann muni láta mikið til sín taka gegn Íslendingum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×