Innlent

Lýst eftir vitnum á Ísafirði

Ísafjörður. Myndin er úr safni.
Ísafjörður. Myndin er úr safni.
Lögreglan á Vestfjörðum óskar eftir vitnum að árekstri sem átti sér stað á bifreiðastæði við Brunngötu á Ísafirði.  En þá var ekið utan í mannlausa Subaru Legacy bifreið, rauða að lit.

 Sá er árekstrinum olli keyrði af vettvangi án þess að gera hreint fyrir sínum dyrum. Talið er að áreksturinn hafi átt sér stað á milli kl.03:00 til 15:00 föstudaginn 26. ágúst sl.  Sími lögreglunnar er 450 3730.

Í liðinni viku voru þrír ökumenn sektaðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum.   Sá sem hraðast ók mældist á 111 km. hraða þar sem hámarkshraði er 90 km/klst.  

Þá var einn ökumaður grunaður um  akstur undir áhrifum áfengis í vikunni.  Sá reyndist heldur ekki vera með gild ökuréttindi.  Í vikunni gaf lögreglan ökumönnum sem töluðu í farsíma sérstakan gaum og var einn kærður fyrir að nota ekki handfrjálsan búnað.

Unglingspiltur var svo staðinn að verki við veggjakrot á Ísafirði í síðustu viku. Drengurinn mun, með aðstoð föður hans, bæta fyrir gjörðir sínar.  Tilkynning um afskipti lögreglunnar af drengnum var jafnframt send til barnaverndaryfirvalda.

Þá lagði lögreglan hald á áfengi hjá tveimur piltum sem ekki höfðu aldur til að meðhöndla slíkt.

Ökumenn eru hvattir til að huga vel að ljósabúnaði bifreiða þeirra, ekki síst í ljósi þess að nú er farið að skyggja. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×