Erlent

Bólusetja börn sem eiga mest á hættu að sýkjast

Flóttamenn streyma nú til Kenýu frá þurrkasvæðum í Sómalíu, en hjálparstarfsmenn eiga fullt í fangi með að bólusetja flóttamennina til að koma í veg fyrir faraldur.

Miklir þurrkar geisa í Sómalíu, en þar hefur hungursneyð lagst ofan á átök stjórnarliða og uppreisnarmanna sem þjakað hafa þjóðina um áralangt skeið.

Fjöldi fólks hefur flúið heimkynni sín í landinu, en margir flóttamenn leggja leið sína yfir landamærin til Kenýu í suðri. Þar hefur landamæravarsla verið hert til muna, en skammt frá landamærunum hefur barnahjálp Sameinuðu þjóðanna komið upp neyðarstöðvum.

Þar er börnunum veitt aðhlynning og þau bólusett til að koma í veg fyrir að sjúkdómafaraldrar blossi upp í flóttamannabúðum.

„Það sem við gerum hérna er að bólusetja við mislingum og lömunarveiki, gefum A-vítamín og ormahreinsum. Við gerum þetta til að hjálpa börnunum sem koma hingað. Við verðum að tryggja að börnin í Kenía séu varin. Þess vegna erum við með þessa herferð," segir Jane Kariuki, fulltrúi UNICEF í Kenýu.

Bólusetningarherferðin stendur yfir í tvær vikur, en hjálparstarfsmenn hafa einkum áhyggjur af lömunarveiki, sem einkum leggst á ung börn og getur reynst banvænn sjúkdómur.

„Við bólusetjum börn sem eru innan við fimm ára. Það eru þau börn sem eiga mest á hættu að sýkjast. Þetta hefur verið mjög árangursrík herferð, aðsóknin hefur vreið góð og við vonsumst til að ná til 95% barnanna," segir Jane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×