Innlent

Lambakjöt búið að hækka um 25 prósent

Hafsteinn Hauksson. skrifar
Lambakjöt.
Lambakjöt.
Landssamtök sauðfjárbænda hafa hækkað verðskrá sína um 25 prósent frá síðasta ári. Formaður samtakanna fullyrðir þó að ekki sé sjálfgefið að hækkunin hafi áhrif á íslenska neytendur, og bendir á að verðskráin sé ekki bindandi.

Landssamtök sauðfjárbænda hafa heimild í búfjárlögum til að gefa út viðmiðunarverð á lambakjöti og öðrum sauðfjárafurðum sem greiðist til bænda, en afurðastöðvar eru ekki skuldbundnar til að fara eftir verðskrá þeirra. Samtökin hækka verðskrána um 25 prósent í dag.

Sindri Sigurgeirsson, formaður samtakanna, skýrir þetta sem svo að verðskráin lýsi væntingum bænda til verðsins sem þeir fá greitt fyrir framleiðslu sína. Hann býst við að afurðastöðvar bregðist við hækkuninni.

„Ég á nú von á því að þær muni eitthvað hækka verð til bænda, þær hafa gert það nú þegar," segir Sindri, en telur þó ekki að það hafi endilega áhrif á neytendur. „Ef það verður 25 prósentahækkun, þá er ekki nauðsynlegt að það skili sér í verði til neytenda á Íslandi. Við höfum séð það að 40 prósent framleiðslunnar eru að fara á erlendan markað."

Sindri segir að verðið á alþjóðamörkuðum hafi hækkað um 130% með falli krónunnar og aukinni eftirspurn erlendis frá ársbyrjun 2008, og þannig hafi skapast svigrúm til að hækka verðið til framleiðenda. Ofan á það leggist miklar hækkanir á framleiðslukostnaði, sem framleiðendur vilja að þeim séu bættar upp.

En er viðmiðunarverðskrá af þessu tagi nokkuð annað en bersýnilegt verðsamráð?

„Það er þannig að við höfum heimild til að gefa út þetta viðmiðunarverð. Með þessu eru Landssamtök sauðfjárbænda, samtök bænda um allt land, að setja fram sínar væntingar. Það er engum skylt að fara eftir þessu og sláturleyfishafar hafa undanfarin ár ekki borgað viðmiðunarverð," segir Sindri, og bætir við að það sé ósköp eðlilegt í viðskiptum að menn segi hvað þeir vilji fyrir framleiðslu sína.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×