Innlent

"Hálfbúarnir“ kaupa gömlu húsin en búa bara hluta ársins

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Fólkið í bænum kallar þá hálfbúa, aðkomumennina sem flutt hafa í stríðum straumum til Stykkishólms en búa bara hluta ársins í bænum.

Það var upp úr 1970 sem íbúar í Stykkishólmi fóru að átta sig á því að það var eitthvað alveg sérstakt við bæinn þeirra, gömlu húsin sem mörg höfðu staðið í óbreyttri mynd frá byggingu þeirra settu sérstakan svip á bæjarlífið. Frá þeim tíma hefur bærinn lagt áherslu á að varðveita 19. aldar götumyndina sem er orðin að sjálfstæðu aðdráttarafli í augum sumra ferðamanna.

Mörg húsanna eru í einstaklega góðu ásigkomulagi og augljóst að íbújar bæjarins leggja mikið á sig til viðhalda sterkum sérkennum og gamla andanum í bænum sem dylst engum sem sækir Hólminn heim. Það er einhver dúlúð, eitthvað andrúmsloft sem grípur þann sem þarna á leið hjá.

Davíð Sveinsson, bæjarfulltrúi og tengdafaðir dáðustu íþróttahetju bæjarins, Hlyns Bæringssonar körfuboltamanns og Svíþjóðarmeistara, segir að það hafi sína kosti og galla að varðveita 19. aldar götumyndina.

„Það eru komin ansi mörg hús sem eru í eigu aðfluttra sem að koma hérna og hafa notað húsin töluvert mikið. En það eru mjög fá hús sem á eftir að gera upp. Þetta hefur bæði kosti og galla, en þetta gerir bæjarmyndina skemmtilegri, segir Davíð Sveinsson, bæjarfulltrúi í Stykkishólmi og fæddur og uppalinn Hólmari.

Davíð segir að heimamenn kalli þá hálfbúana, þessa aðfluttu sem kaupi sér hús en dvelji í þeim aðeins hluta ársins. „Eini gallinn við þetta er að það er ekki fólk í þessum húsum allt árið. Sérstaklega yfir vetrartímann eru sum húsin auð og það eru auðvitað íbúarnir sem þurfa að halda uppi sveitarfélaginu, en þetta þýðir færri skattgreiðendur. Það vantar að fólk geti verið með tvöfaldan búseturétt hérna," segir Davíð. thorbjorn@stod2.isAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.