Innlent

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins: Það gengur friðarspillir laus á Alþingi

Stjórnarandstaðan sakaði forsætisráðherra á Alþingi í dag um að koma í veg fyrir að sátt næðist um minna kvótafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Málið var afgreitt með miklum ágreiningi úr sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd í morgun.

Minna kvótafrumvarp ríkisstjórnar tók umtalverðum breytingum þegar það afgreitt úr sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd í morgun. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar gagnrýndu hins vegar málsmeðferðina harðlega og telja að frumvarpið sé meingallað

„Það var verið að rífa þetta mál út þrátt fyrir að engin efnisleg umræða hefði farið fram um málið á vettvangi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar," segir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Stjórnarandstaðan sakaði forsætisráðherra um að koma í veg fyrir að sátt næðist um málið.

„Það gengur friðarspillir hér laus á Alþingi, ég fullyrði það virðulegi forseti, í þessu máli eins og mörgum öðrum og það er forsætisráðherra Íslands sem ég er að tala um," sagði Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

„Kergjan í forsætisráðherra og stoltið hjá hæstvirtum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er að sprengja allt vinnulag á þingi í loft upp," sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

„Mér finnst það löðurmannlegt af háttvirtum þingmönnum stjórnarandstöðunnar að koma hingað og ráðast að hæstvirtum forsætisráðherra fjarstöddum með þeim hætti sem þeir gera hér," sagði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.

„Það voru lagðar fram tillögur til sátta í síðustu viku og aftur í þessari viku og ég taldi og meirihluti nefndarinnar að lengra væri ekki komist," sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG.

Samkvæmt dagskrá á síðasti þingfundur fyrir sumarfrí að vera á morgun en margt bendir þó til þess að sú áætlun muni ekki standast. Ríkisstjórnin vill klára kvótafrumvarpið fyrir frí en stjórnarandstaðan hótar hins vegar að beita málþófi. Forseti Alþingis hefur fundað með forystumönnum þingflokka í dag til að ná sátt um málið - hingað til án árangurs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×