Innlent

Tíu prósent leikskólabarna með erlent móðurmál

Aldrei hafa fleiri börn verið á leikskólum á Íslandi
Aldrei hafa fleiri börn verið á leikskólum á Íslandi Mynd: Vilhelm
Tæp tíu prósent leikskólabarna hafa annað tungumál en íslensku að móðurmáli, og hafa aldrei verið fleiri. Í desember 2010 voru 1.815 börn með erlent tungumál að móðurmáli, eða 9,6% leikskólabarna.. Þessum börnum fjölgaði um 201, eða12,5%, frá desember 2009. Af þeim hafa 520 börn pólsku sem móðurmál og er það algengasta erlenda tungumálið eins og undanfarin ár. Pólskumælandi leikskólabörnum fjölgar um 97 frá fyrra ári. Þá fjölgar leikskólabörnum sem hafa lithásku að móðurmáli um 25 og börnum sem hafa tælensku að móðurmáli fjölgar um 19.

Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Börnum með erlent ríkisfang fjölgar

Í desember 2010 voru 711 börn í leikskólum landsins með erlent ríkisfang og hafði fjölgað um 82 börn frá fyrra ári, eða 13,0%. Þetta rímar við fjölgun barna í leikskólum sem hafa erlent móðurmál. Fjölgunin er tilkomin vegna fjölgunar barna frá Austur-Evrópu, 57, og frá Eystrasaltslöndunum, 26.

Aldrei fleiri börn á leikskóla á Íslandi

Á vef Hagstofunnar er einnig greint frá því að ídesember 2010 sótti 18.961 barn leikskóla á Íslandi og hafa þau aldrei verið fleiri. Leikskólabörnum hefur fjölgað um 245 frá desember 2009, eða um 1,3%. Þrátt fyrir þessa fjölgun hefur hlutfall  barna á aldrinum 1-5 ára sem sækja leikskóla lækkað lítillega, úr 83% fyrir ári síðan í 82% í desember 2010. Þá má greina breytingar á viðverutíma barnanna. Milli áranna 2009 og 2010 fækkar um tæplega 1.100 börn sem dvelja í leikskólanum í 9 klukkustundir eða lengur á dag en á sama tíma fjölgar börnum sem dvelja í leikskóla í 8 klukkustundir á dag um tæplega 1.400.

Börnum sem njóta sérstaks stuðnings fækkar milli ára

Í desember 2010 nutu 1.232 börn sérstaks stuðnings vegna fötlunar, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika, 6,5% leikskólabarna. Þetta er fækkun um 130 börn frá fyrra ári, 9,5%. Eins og undanfarin ár eru fleiri drengir í þessum hópi. Árið 2010 nutu 834 drengir stuðnings, 68%, og 398 stúlkur, 32%. Hlutfall barna sem njóta stuðnings er mishátt eftir landssvæðum. Þannig njóta 3,9% leikskólabarna á Norðurlandi eystra stuðnings, meðan 11,2% austfirskra barna fá stuðning.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.