Erlent

Hundtryggur: Neitar að yfirgefa gröf húsbónda síns

Íbúar í þorpi einu í Kína hafa tekið ástfóstri við hund einn sem neitar að víkja frá gröf fyrrum húsbónda síns. Nú er ráðgert að byggja hundakofa í kirkjugarðinum til þess að hvutti geti haft það aðeins huggulegra.

Hundurinn tilheyrði einstæðingi í þorpinu að nafni Lao Pang. Hann dó í síðasta mánuði, 68 ára að aldri. Skömmu eftir andlátið hvarf hundurinn en nokkrum dögum síðar var hann kominn að gröf húsbóndans. Þaðan hefur hann staðfastlega neitað að hverfa, þrátt fyrir gylliboð um góðan mat og húsaskjól. Nú hafa þorpsbúarnir komið sér upp kerfi sem tryggir að voffi fær mat á hverjum degi frá einhverjum þeirra.

Sagan er sögð minna á hundinn Bobby frá Edinborg, sem lá við gröf húsbónda síns í heil fjórtán ár á nítjándu öld. Honum var síðar reist bronsstytta í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×