Innlent

Konur fá að fjúka frá borginni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir vísar á þá Dag B. Eggertsson og Jón Gnarr varðandi þessar breytingar. Mynd/ GVA.
Hanna Birna Kristjánsdóttir vísar á þá Dag B. Eggertsson og Jón Gnarr varðandi þessar breytingar. Mynd/ GVA.
Alls verður 46 stjórnendum í skólakerfinu sagt upp hjá Reykjavíkurborg um næstu mánaðamót vegna breytinga á skólakerfinu sem borgarráð samþykkti í gær, samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Leikskóla- og Menntasviði Reykjavíkurborgar. Allt eru þetta konur sem missa vinnuna, en einhverjar þeirra munu fá önnur störf hjá borginni. 

„Það er auðvitað sorglegt að þessar vanhugsuðu aðgerðir meirihlutans skuli bitna með svo hörðum hætti á þeim frábæru kvenstjórnendum sem leitt hafa öflugt leikskólastarf fyrir börnin í borginni til margra ára," segir Hanna Birna. Hún segir að meirihlutinn hljóti að hafa gert sér grein fyrir þessu og því eðlilegt að þeir karloddvitar sem leiði hann svari fyrir þetta. Þar vísar Hanna Birna til Jóns Gnarr borgarstjóra og Dags B. Eggertssonar, formanns borgarráðs.

Oddný Sturludóttir, formaður Menntaráðs, segir að eftir breytingarnar verði þetta 15 stjórnendastöðum færra. „Hins vegar geta stjórnendur valið úr deildarstjórastöðum eða sérkennslustjórastöðum. Við þurfum að ráða inn 55 nýja starfsmenn í nýjar stöður í haust af því að við erum að fjölga svo leikskólaplássum. Þannig að allir fá vinnu," segir Oddný. Hún segir að enginn þurfi að hafa áhyggjur af því að starfskrafta þeirra verði ekki óskað áfram.

Við þetta er að bæta að Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, og fyrrverandi borgarfulltrúi VG, segir á fésbókarsíðu sinni að aðgerð meirihlutans í Reykjavík sé líklega einsdæmi að því er varðar að ráðast gegn kvenstjórnendum á einu bretti.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.