Enski boltinn

Kuszczak fer frá Man. Utd í sumar

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Bless, bless. Kuszczak er á förum.
Bless, bless. Kuszczak er á förum.
Pólski markvörðurinn, Tomasz Kuszczak, greindi frá því í dag að hann ætli sér að yfirgefa herbúðir Man. Utd í sumar.

Kuszczak hefur veitt Edwin van der Sar keppni um markmannsstöðu Man. Utd síðustu ár og þó svo Van der Sar hætti í sumar er Kuszczak ekki bjartsýnn á að taka hans stöðu og ætlar því að reyna fyrir sér annars staðar.

Man. Utd hefur heldur ekki farið leynt með að félagið ætli sér að kaupa nýjan háklassamarkvörð fyrir Van der Sar.

"Minn tími hjá Manchester er á enda. Ég hef lagt hart að mér í fimm ár en aldrei spilað eins mikið og ég hefði viljað. Það er synd að stjórinn hafi aldrei gefið mér almennilegt tækifæri," sagði Kuszczak.

"Ég trúði því alltaf að ég gæti leyst Edwin af hólmi en því miður er Sir Alex ekki á sömu skoðun."

Kuszczak hefur aðeins leikið um 30 leiki í ensku úrvalsdeildinni fyrir Man. Utd síðan hann kom til félagsins árið 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×