Íslenski boltinn

Óli Þórðar tekur við Víkingum og Helgi Sig aðstoðar hann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Þórðarson.
Ólafur Þórðarson. Mynd/Valli
Ólafur Þórðarson verður næsti þjálfari Víkinga sem spila í 1. deildinni næsta sumar. Hann var kynntur til leiks á Lokahófi Víkinga í gærkvöldi og þá kom líka í ljós að Helgi Sigurðsson verður aðstoðarþjálfari hans.

Ólafur gerði þriggja ára samning við Víkinga en hann er fjórði þjálfari Víkinga á árinu 2011. Leifur Garðarsson var rekinn fyrir tímabilið og Bjarnólfur Lárusson tók við þegar Andri Marteinsson var rekinn í júlí.

Ólafur Þórðarson stýrði Fylkismönnum í síðasta sinn í lokaumferð Pepsi-deildar karla í gær þegar liðið tapaði 3-5 fyrir FH. Ólafur hefur þjálfað Fylki undanfarin þrjú sumur en Ólafur hefur aðeins misst út eitt ár í úrvalsdeildinni á þessari öld (sumarið 2008) því hann þjálfaði ÍA frá 1999 til 2006 og Framara sumarið 2007.

Helgi Sigurðsson snéri heim til Víkings fyrir sumarið 2010 og hjálpaði liðinu að vinna sér sæti í úrvalsdeildinni en Helgi gat minna beitt sér í sumar vegna meiðsla. Helgi verður spilandi aðstoðarþjálfari næsta sumar en hann verður 38 ára á næsta ári.

Ólafur á líka að baki tvö ár sem þjálfari Fylkismanna í b-deildinni en hann stýrði Fylkisliðinu í 1.deildinni 1998 til 1999. Seinna árið unnu Fylkismenn yfirburðarsigur í deildinni, fengu 16 stigum meira en Stjarnan sem fylgdi þeim upp í úrvalsdeildina.

Björn Einarsson, formaður Knattspyrnudeildar Víkings, sagði í samtali við íþróttadeild að félagið leggi ríka áherslu á það að halda sem flestum leikmönnum liðsins og þar á meðal er Björgólfur Takfeusa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×