Enski boltinn

Babel spenntur fyrir leiknum í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ryan Babel í leik með Liverpool.
Ryan Babel í leik með Liverpool. Nordic Photos / Getty Images

Ryan Babel segist vera tilbúinn til að spila sem framherji með Liverpool gegn Atletico Madrid í síðari viðureign liðanna í undanúrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld.

Flestir sóknarmenn Liverpool eiga nú við meiðsli að stríða. Fernando Torres er að jafna sig eftir hnéaðgerð og þeir Dirk Kuyt og David Ngog eru báðir tæpir fyrir leikinn í kvöld.

Babel þekkir vel framherjastöðuna frá fyrri tíð en hann lék í þeirri stöðu með félögum sínum í Hollandi og yngri landsliðum Hollands.

„Ég veit hvað framherji þarf að gera og hvaða skyldum þeir hafa að gegna. Ég veit að ég get gert mitt besta fyrir liðið," sagði Babel við enska fjölmiðla.

„Ég held að ég geti skorað mörk og gefið stoðsendingar. Vonandi tekst mér að hjálpa liðinu og liðinu að hjálpa mér."

Babel var keyptur til Liverpool árið 2007 fyrir ellefu milljónir punda en sjálfur segir Babel að hann hafi enn ekki náð að sýna sínar bestu hliðar hjá Liverpool.

„Það er langur vegur frá því og það finnst mér vera pirrandi. En við þurfum að líta til framtíðar og nýta hana eins vel og kostur er."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×