Innlent

Varað við lífshættulegu efni

Benedikta Jónsdóttir
Benedikta Jónsdóttir
Kraftaverkaefni sem Landlæknisembættið hefur varað við hefur verið selt í Heilsubúðinni Góð heilsa gulli betri við Njálsgötu. Efnið nefnist MMS, Miracle Mineral Solution/Supplement. Eitrunarmiðstöð Landspítalans segir efnið geta valdið alvarlegum veikindum og jafnvel dauða.

Viktoría Áskelsdóttir, verslunarstjóri Heilsubúðarinnar, segist hafa tekið MMS úr sölu meðan Heilbrigðiseftirlitið kannar málið. Hún áréttar um leið að MMS hafi verið notað með góðum árangri sé það rétt blandað. Þá verði ekki til natríum klórít sem eitrunarmiðstöð Landspítalans vari við.

Samkvæmt upplýsingum úr heilsuvöruverslununum Heilsuhúsinu, Manni lifandi og Yggdrasil hefur efnið ekki verið í sölu hjá þeim.

„Ég hef haft þá reglu að setja ekkert í sölu sem ég er ekki tilbúin að prófa á sjálfri mér,“ segir Ben­edikta Jónsdóttir, heilsuráðgjafi í Manni lifandi.

Í tilkynningu landlæknis kemur fram að MMS-vökvinn innihaldi 28 prósent natríum klórít og sagt ætlað að lækna sjúkdóma allt frá alnæmi til berkla. Engin vísindaleg gögn styðji þó notkun við sjúkdómum.

„Natríum klórít er eitur sem valdið getur met­rauðablæði, skemmdum á rauðum blóðkornum og nýrnabilun,“ segir í tilkynningunni og er eindregið varað við notkun efnisins. „Mikilvægt er að tilfelli þar sem grunur leikur á eitrun af völdum MMS séu tilkynnt til yfirvalda.“ - óká



Fleiri fréttir

Sjá meira


×