Innlent

Hreyfingin: Mótmælendurnir voru að sinna skyldu sinni

Þingmenn Hreyfingarinnar.
Þingmenn Hreyfingarinnar. Mynd/Vilhelm Gunnarsson

Hreyfingin vill að Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, dragi til baka kærur gegn hópi fólks sem ruddist inn í Alþingishúsið í desember 2008. Hópurinn hafi einungis verið að sinna sjálfsagðri borgaralegri skyldu sinni.

Mál níu manna sem ákærðir hafa verið vegna mótmælanna var þingfest í gærmorgun. Átök brutust út annars vegar á milli einstaklinga úr hópi fólks sem réðst inn í húsið og upp á áhorfendapalla og hins vegar þingvarða og lögreglumanna. Fimm þingverðir slösuðust í þessum átökum. Einn þeirra hlaut áverka sem leiddu til örorku. Níumenningarnir hafa verið ákærðir fyrir brot á grundvelli 100. grein hegningarlaganna eða fyrir árás gegn Alþingi.

Alþingi í desember 2008.Mynd/Arnþór Birgisson
„Grasrót Hreyfingarinnar mótmælir því harðlega hvernig stórfurðuleg forgangsröðun kerfisins birtist nú þjóðinni í ákærum gagnvart smáum hópi borgara sem var nóg boðið, steig fram og vildi koma á framfæri óánægju sinni gagnvart ástandinu. Hópi borgara sem eins og við flest, eru þolendur gríðarlegrar vanrækslu framkvæmda- og löggjafavaldsins gagnvart lögbundnu eftirlitshlutverki sínu," segir í tilkynningu frá Hreyfingunni.

Þar segir jafnframt að á sama tíma hafi stórglæpamenn og gerendur hrunsins enn fulla friðhelgi í samfélaginu. Þeir sitji enn með fullt forræði yfir eigum sínum og starfi í flestum tilfellum áfram í sömu störfum og áður.

„Það er skýlaus krafa okkar að skrifstofustjóri Alþingis, Helgi Bernódusson, dragi umsvifalaust kærur gegn þessu fólki til baka. Þau voru að sinna sjálfsagðri borgaralegri skyldu sinni."


Tengdar fréttir

Íhugar að játa til að spara skattfé

Líftæknifræðingurinn Kolbeinn Aðalsteinsson er einn af níu sem hafa verið ákærðir fyrir árás á Alþingi en málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun. Sjálfur er Kolbeinn búsettur á Siglufirði og frétti fyrst af því að hann væri ákærður þegar hann las fréttirnar á vefnum eftir vinnu í kvöld.

Skrifstofa þings kaus að kæra fyrir aðför

Ríkissaksóknari segist ekki hafa heimild til að láta mál niður falla þar sem sjö manns hafa særst í átökum. Hann bendir á að kæran gegn ellefu manns, sem réðust inn í Alþingishúsið með þeim afleiðingum að lögreglumenn og fleiri særðust, komi til sín eftir rannsókn lögreglu á kæru skrifstofustjóra Alþingis. Það hafi verið Alþingi sem ákvað að kæra samkvæmt 100. grein hegningarlaga, sem kveður á um eins árs lágmarksfangelsisvist, verði hin ákærðu dæmd sek.

Hörður Torfa: Ákærurnar eins og olía á eld

Hörður Torfason einn af upphafsmönnum Búsáhaldabyltingarinnar segir símann hafa verið rauðglóandi í morgun eftir að fréttir bárust af því að mótmælendurnir níu yrðu ákærðir. Hann segir forgangsröðun Ríkissaksóknara kolranga.

Ríkissaksóknari hefur ekki ákæruvald í efnahagsbrotamálum

Ríkissaksóknari segist ekki hafa ákæruvald í efnahagsbrotamálum og furðar sig á öllu tali um ranga forgangsröðun í tengslum við ákæruna gegn fólki sem mótmælti við Alþingishúsið í desember 2008. Hörður Torfason, tónlistarmaður og mótmælandi, er einn þeirra sem hefur gagnrýnt Ríkissaksóknara.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×