Enski boltinn

Ferguson neitar því að hann sé að fara hætta á næsta ári

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Mynd/AP
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, hefur stigið fram og neitað þeim orðrómi um að hann sé að fara að hætta með liðið í lok næsta tímabils. Það hefur verið mikil umræða um eftirmann Ferguson í enskum fjölmiðlum í vikunni.

„Þetta er bara algjör vitleysa og það er ekkert til í þessu," sagði Sir Alex Ferguson á blaðamannafundi í dag fyrir leik liðsins á móti Tottenham á morgun. „Það er ekkert á dagskránni hjá mér að fara að hætta og ef svo væri þá myndi ég tala fyrst við David Gill og Glazer-fjölskylduna," sagði Ferguson.

Alex Ferguson ætlaði að hætta árið 2002 en hætti þá við á síðustu stundu. Hann hefur frá þeim tíma unnið sex stóra titla til viðbótar, ensku deildina fjórum sinnum (2003, 2007 2008 og 2009), enska bikarinn einu sinni (2004) og Meistaradeildina einu sinni (2008).

Manchester United hefur alls unnið þessa þrjá stærstu titla 18 sinnum undir stjórn Skotans sem er orðinn 68 ára gamall og hefur setið í stjórastólnum á Old Trafford frá 1986.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×