Innlent

Mótmæla niðurskurði til löggæslumála

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Niðurskurður til löggæslumála er farinn að hafa áhrif á öryggisstig íbúa og lögreglumanna á Suðurlandi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum, segir stjórn Lögreglufélags Suðurlands í ályktun sem hún hefur sent frá sér.

Stjórnin mótmælir harðlega þeim niðurskurði sem boðaður hefur verið í fjárlögum næsta árs og telur að með boðuðum niðurskurði sé stórlega vegið að öryggi íbúa og lögreglumanna. Miðað við þann mannafla sem standi vaktir og sinni almennri löggæslu daglega á Suðurlandi nú, telji stjórnin að löggæsla á svæðinu sé komin niður fyrir lágmarks öryggiskröfur sem gera eigi til lögreglu.

Stjórnin Lögreglufélags Suðurlands segir að það sé að verða árlegur viðburður að stjórn LFS sendi frá sér ályktun þess efnis að fjármagn vanti í rekstur embættanna á Selfossi og á Hvolsvelli. Gríðarlegur niðurskurður var á fjárframlögum til lögreglu á árinu 2009 og enn frekari á árinu 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×