Innlent

Síminn tekur ekki gjald af símasöfnun fyrir Haítí

Síminn. Mynd úr safni.
Síminn. Mynd úr safni.

„Málið er að það urðu leiðindamistök," segir Margrét Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, en þeir sem hafa hringt í styrktarsíma Rauða Krossins í þeim tilgangi að styrkja björgunarstarf í Haítí, hafa orðið varir við að Síminn tilkynnir viðkomandi að 79 krónu gjald renni til símans.

Fjölmargir hafa haft samband við Vísi í morgun og lýst yfir hneykslun sinni á gjaldtökunni.

Að sögn Margrétar var söfnunin sett á laggirnar í miklu flýti sem varð til þess að Símanum gafst ekki kostur á því að breyta skilaboðunum sem heyrast í byrjun símtalsins. Þess vegna eru 79 krónur teknar af hverjum þeim sem hringir og vill styrkja björgunarstarfið um 1500 krónur.

„En gjaldið rennur óskert til Rauða Krossins," segir Margrét sem heyrði fyrst af mistökunum í morgun. Síminn styrkir því Rauða Krossinn um 79 krónur aukalega vegna hvers símtals.

„Okkur þykir þetta mjög leiðinlegt," segir Margrét og bendir á að Síminn styrkir Rauða Krossinn allt árið í kring og það sé kappsmál hjá fyrirtækinu að taka ekki gjald þegar um góð málefni er ræða í símasöfnun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×