Íslenski boltinn

Rúnar: Erlendur átti bara fínan leik

Valur Smári Heimisson skrifar
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var ánægður með sína menn eftir 4-2 sigur á ÍBV í Eyjum í kvöld og hann sagði einnig um að hinn umdeildi Erlendur Eiríksson, dómari leiksins, hafi bara staðið sig ágætlega.

„Heilt yfir vorum við betri. Þegar Eyjamenn komast inn í leikinn og ná að jafna þá fá þeir ágætis séns að komast yfir. En svo fannst mér við aftur ná tökum á leiknum og við gerum í raun út um leikinn með að skora þessu tvö frábæru mörk sem að skildu liðin að. Eftir þau mörk fannst mér aldrei spurning um hvernig þessi leikur myndi enda," sagði Rúnar.

Rúnar sagðist alveg búast við því að Eyjamenn myndu mæta dýrvitlausir inn í seinni hálfleikinn og varaði sína menn við að leggjast ekki of langt til baka.

„Þetta er svo rosalega fljótt að breytast í fótbolta. Þrátt fyrir að við höfum verið tveimur mörkum yfir í hálfleik þá varaði ég mína menn við því að vera ekki að leggjast of langt til baka. Við ætluðum bara að halda okkar leik áfram og bæta við fleiri mörkum," sagði Rúnar.

Eftir umræðu síðustu viku varð undirritaður að spyrja Rúnar út í frammistöðu dómarans í leiknum en stjórn KR sendi frá sér yfirlýsingu um óánægju með að setja Erlend Eiríksson sem dómara þessa leiks.

„Dómararnir stóðu sig bara vel. Þetta var erfiður leikur að dæma og þeir dæmdu leikinn bara ágætlega. Það eru alltaf atriði sem ég get bent á eftir leiki og seinnilega er það eins hjá Heimi. Heilt yfir fannst mér hann eiga fínan leik," sagði Rúnar að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×